Eina lausnin á tungumálavanda EB

Alþjóðastofnanir eiga erfitt með að starfa á sem hagstæðastan hátt ef ekki er notað eitt sameiginlegt vinnutungumál. Að hafa sem nú 11, eða eftir nokkur ár 20 tungumál, er það sama og að hafa ekkert ákveðið vinnutungumál, sem eykur líkurnar á misskilningi, minni afköstum og auknum kostnaði. Gustaf Möller, sænskur félagsmálaráðherra, sagði: ”Hver einasta illa notuð skattkróna er þjófnaður frá hinum fátæku”.

Ef innleitt væri eitt sameiginlegt vinnutungumál í EB myndi það hleypa lífi í og auka afköst allrar samvinnu, og þar að auki skapa nýja möguleika á samvinnu yfir tungumálalandamærin. Eitt sameiginlegt tungumál er skilyrðið fyrir að EB geti haft nokkurn raunverulegan möguleika á að verða valdamikill aðili í heiminum, jafngildum Bandaríkjunum eða hinu upprennandi Kína.

Með valdamiklum aðila á ég hér við að EB í krafti fólksfjölda síns, lýðræðislegum hefðum og efnahagslegum krafti, ætti að hafa bolmagn til að leggja sitt af mörkum til öruggari og betri heims, í samvinnu við önnur lönd og samfélög.

Hræðilega erfitt tungumál

Við ættum að vera áhyggjufull yfir hvernig alþjóðlegu sambandanna er gætt. Stjórnmálamenn geta ekki talað saman á eðlilegan hátt þar sem þeir eru háðir túlkum. Ein rangtúlkun, og þær gerast ekki ósjaldan, getur fengið örlagaríkar afleiðingar. Enn verra er að ríkjandi alþjóðamálið er enskan, tungumál sem er hræðilega erfitt að læra. Margir stjórnmálamenn, sem ekki hafa ensku sem móðurmál, leggja metnað sinn í að láta svo líta út að þeir hafi gott vald á ensku, sem þeir venjulega gera ekki nægilega til að geta tekið þátt í stjórnmálaumræðum. Þetta hefur í för með sér mikla hættu á röngum ákvarðanatökum þar sem undirstaðan er byggð á rangtúlkunum og misskilningi. Þegar atvinnutúlkar túlka rangt hversu oft getur það ekki komið fyrir stjórnmálamennina okkar?

Til að Evrópusambandið geti orðið að því velstarfandi lýðræðislega sambandi sem Evrópubúar geti sýnt samstöðu sína og hollustu við, krefst það umræðna innan landamæra Evrópu, og jafnvel, á sambandsstigi, evrópska stjórnmálflokka. Til að þetta geti orðið að veruleika verður að vera eitt sameiginlegt EB-tungumál, samhliða þjóðtungunum. Þegar við fáum eitt auðvelt evrópskt tungumál, tungumál sem allir evrópskir ríkisborgar geti haft samskipti á, þá fáum við skjótt evrópsk dagblöð og evrópska umræðu.

Stjórnmálamennirnir munu aldrei nokkru sinni geta komið sér saman um að nota eitt þjóðtungumál í alþjóðaumræðunni, stoltsins vegna en einnig vegna þess að það myndi hafa í för með sér að það land/þau lönd sem það tungumál tala myndi/myndu hagnast allt of mikið á því sálfræðilega, fjárhagslega og stjórnmálalega. Það eru gífurleg forréttindi að fá alltaf að tala eigið tungumál í alþjóðlegum samingarviðræðum. Aðeins hlutlaust tungumál hefði möguleika á að verða samþykkt.

Mikilvægt að skilja forsetann

Hefðu Bandaríkin verið það heimsveldi sem þau eru í dag ef þau hefðu ekki haft eitt sameiginlegt tungumál og ef meirihluti íbúanna hefði ekki skilið hvað forsetinn segði? Nei, því sameiginlegt tungumál er mjög sterkur sameiningarhlekkur.

Enginn ætti að þurfa að læra fleiri en eitt framandi tungumál, hið opinbera tungumál Evrópu. Flestar geta ekki lært fleiri en eitt framandi tungumál vel, ef ekki að öðru en tímaskorti. Það eru til mikilvægari hlutir í lífinu en að læra tungumál.

Hvort sem EB velur að hafa 20 vinnutungumál, eða að hafa ensku, frönsku eða þýsku sem vinnutungumál munu Evrópubúarnir ekki geta haft frjáls samskipti sín á milli, og á meðan þeir geta það ekki mun ekki heldur verða til samkennd milli Evrópubúa. Tungumálið er aðalatriðið fyrir áframhaldandi lýðræðislegri, stjórnmálalegri og efnahagslegri þróun í EB, og þar með einnig að EB geti beitt sér í baráttunni fyrir öruggari heimi í samvinnu við önnur lönd.

Of erfitt fyrir flesta

Ein af forsendunum fyrir að EB geti borið sig saman við Bandaríkin og verðandi heimsmarkaðrisar eins og Kína og Indland er að EB þróist í hreyfanlegra þekkingarsamfélag. Hvernig mun það ganga þegar opinberu tungumálin verða orðin 20 innan EB-stjórnarinnar og ráðandi vísindatungumálið, sem er enskan, er fyrir flesta borgarana erfitt að ná fullum tökum á?


© Hans Malv, 2004