Hvers vegna er móðurmálið mikilvægt?

Þó þú sért ekki sænsk/ur ættir þú ekki að hoppa yfir þennan kafla því hann er mikilvægur. Það sem rætt er um hér gildir ekki einungis fyrir mitt tungumál, sænskuna, heldur er nothæft á meirihluta tungumála heimsins, einnig íslensku. Við verðum að vera liðholl hvert öðru. Leiðin að heimi með nokkur fá tungumál mun verða full mótlæti og félagslegum óróleika.

Það stendur yfir tungumálaleg ensk nýlenduvæðing í heiminum. Það er ekkert að stjórnmála-, menningar- og tæknilegum áhrifum sem koma annars staðar frá, þvert á móti eru þau auðgandi. En með m.a. stöðugt auknum enskumælandi áhrifum hefur enskan orðið að ógnun við sænska tungumálið okkar og sænska menningu. Margir tungumálafræðingar halda að þegar eftir tvær kynslóðir muni enska tungumálið verða ráðandi tungumál í Svíþjóð. Og þá mun það ekki einungis verða tungumálið sem er ráðandi heldur einnig menning þess.

Þúsundir tungumála munu hverfa

Það er staðreynd, skv. málarannsóknarmönnum, að þúsundir tungumála munu hverfa á næstu hundrað árum.

Það er áhyggjuefni að í Svíþjóð hefur verið hætt að nota sænsku á ýmsum sviðum og í staðinn er notuð enska. Enska hefur í auknu mæli tekið yfirhöndina á síðustu áratugum yfir sænsku í rannsóknum og á hærri menntunarstigum, sérstaklega í náttúru-, læknis- og tæknifræði.

Svæðatap

Með aukinni útbreiðslu enskunnar í Svíþjóð hefur verið byrjað að vara við málalegu “svæðatapi” en þar er átt við að heil svæði, eða svið, innan vísinda og menningarheimsins tapast meira eða minna.

Hvað varðar læknavísindin þá má sjá uggandi viðvörunarmerki eins og t.d.:

Háskólaritgerðir eru yfir höfuð æ oftar skrifaðar á ensku.

Tungumál geta dáið út

Hvernig gerist það þegar tungumál smám saman minnkar og deyr svo út? Þegar hætt er að nota tungumál á einu starfssviði hættir tungumálið að þróast sem samskiptamiðill á þessu sviði. Til dæmis verða ekki til ný fræðiheiti yfir ný fyrirbæri. Notum við ekki sænsku í t.d. læknisfræði rannsóknum þá mun smám saman verða erfitt að tala og skrifa sænsku um nýjustu sigrana í faginu, jafnvel þar sem væri vel við hæfi að gera það. Þá hefur átt sér stað svæðatap – sænskan hefur hætt að vera nothæft tungumál til að lýsa hlutum innan læknisvísindanna. Heldur þróunin áfram, t.d. með því að læknanemar fái alla kennslu á ensku, mun allt sviðið vera tapað fyrir sænskuna.

Sænska orðanefndin er óróleg yfir því að heilu ”svæðin” gætu tæmst á nothæfri sænsku: Í banka-, fjármála-, tölvu- og netgeirann vantar oft sænsk orð og orðasambönd og einnig í stjórnmálageirann sem verður æ alþjóðlegri. Það er ekki óvenjulegt í Svíþjóð að rannsóknir og kennsla fari fram á ensku.

Í stjórnmálageiranum hefur enskan orðið allt meir ráðandi eftir að Svíþjóð gerðist aðili í EB. Á mörgum vinnustöðum í iðnaði og verslun er enskan fyrirtækistungumálið, þ.e.a.s. eina ritmálið og ríkjandi talmálið. Sænska er einungis notuð þegar tveir Svíar hittast yfir kaffibolla.

Það sem gerist er að staða sænskunnar sem samfélagsberandi tungumál þverrar.

English native speaker

Ég las um mann sem hafði safnað 500 mismunandi atvinnuauglýsingum í belgískum dagblöðum þar sem krafist var að umsækjendur væru: ”English native speaker”, þ.e.a.s. hefðu ensku sem móðurmál. Svona auglýsingar hafa einnig birtst í öðrum evrópulöndum, þ.á.m. í Noregi.

Svæðatap til enskunnar hefur m.a. í för með sér að stór hluti íbúanna eru útilokaðir frá lýðræðislegri samfélagsumræðu og mikilvægri þekkingu. Svona svæðatap skapar erfiðleika. T.d. verður erfitt að dreifa þekkingu út fyrir sérfræðingshópana. Þetta gefur verri möguleika á innsýn í vísindalegar rannsóknir, sem minnkar möguleikana á nauðsynlegum almennum umræðum um ýmis mál. Viljum við að náttúruvísindamenn framtíðarinnar verði útilokaðir með þekkingu sína frá t.d. umhverfis- og heilsugæsluumræðunni í heimalandi sínu einungis vegna þess að þeir eru ekki hæfir um að miðla af þekkingu sinni á móðurmáli sínu.

Erfðatækni kemur okkur öllum við

Sambandið milli leikmanna og sérfræðinga getur orðið erfiðleikum bundið ef íslenskt fagmál er ekki fyrir hendi. Það er mikilvægt að þið getið rætt saman á íslensku um allt frá erfðatækni til þjóðhagfræði. Möguleikar fyrirtækja til að hagnast á nýjum uppgötvunum minnka ef nýrri þekkingu er ekki dreift á íslensku, sænsku eða á öðrum tungumálum.

Svæðatap dreifist auðveldlega í nokkurs konar keðjuverkun. Hægt er að sjá þess konar tilhneigingu nú í Svíþjóð. Enskukennsla verður æ algengari í menntaskólum og grunnskólum, m.a. með skírskotun til enskunnar sem ráðandi tungumáls á æðri menntunnarstigum.

Tungumál til heimilisnotkunar

Ef sænskan tapar mörgum svæðum mun það hafa mikill áhrif á sænska samfélagið. Við gætum hafnað í aðstöðu þar sem enska væri tungumál hins opinbera lífs (í skóla, á vinnustað, í stjórnsýslu, ofl.), á meðan sænska væri tungumál til heimilisnotkunar og í óopinberu daglegu lífi. Svona aðstæður með eitt “hátungumál” og eitt ”lágtungumál” er ekki óalgengar. Við sjáum það m.a. í mörgum löndum með nýlendufortíð þar sem gamla nýlendutungumálið er til dæmis notað í menntakerfinu, á meðan móðurmál fjöldans er annað tungumál. Reynslan frá þessum löndum hvetja ekki til eftirbreytni. Þvert á móti er reynslan ótvírætt neikvæð: Slakar kennsluniðurstöður og félagsleg togstreita.

Þér þykir ég ýkja en því miður, ég geri það ekki.

Norræna ráðherraráðið, sem Ísland er auðvitað aðili að, fól tíu málarannsóknarmönnum verkefnið að rannsaka sambandið milli ensku og norrænu tungumálanna. Niðurstöður voru birtar í bókinni: ”Enska tungumálið sem ógnun og styrkur á Norðurlöndunum”, og er skrifuð út frá niðurstöðunum af blaðamanninum Renée Höglin. Frumkvæðið að verkefninu átti Olle Josephson, formaður sænsku tungumálanefndarinnar. Ef allt fer á versta veg, segir Josephson, mun enskan verða að útilokandi elítutungumáli, þar sem rannsóknarmenn rannsaka á ensku, fyrirtækjum er stjórnað á ensku, elítan lætur börn sín í enskumælandi skóla, horfir á enskumælandi sjónvarpsstöðvar og les dagblöð á ensku. Tungmálagjár verða að stéttagjám. Þar að auki er hætta á að norðurlandatungumálin hætti að þróast á mörgum sviðum.

Hafa betur í samkeppninni eða deyja

Hinn hægfara dauði sænska tungumálsins sem nú á sér mun þegar til lengri tíma er litið hafa í för með sér bil á milli þeirra sem hafa gott vald á ensku og þeirra sem gera það ekki. Sænska tungumálið mun verða að hindrun. Sænskan mun þá ekki lengur verða eigið og ríkt sameiningartungumál. Þetta mun þýða ógnun við lýðræði okkar. Þegar okkur verður þetta ljóst mun verða of seint að innleiða esperantó. Í staðinn verður þá eina rétta lausnin að bæta sameiginlegu enskukennsluna í skólum með því að, til að byrja með að hluta til, láta smám saman alla skólakennsku fara fram á ensku, til að við drögumst ekki aftur úr heimi sem verður æ alþjóðlegri og byggður á samkeppni. Það sem gildir er ”að hafa betur í samkeppninni eða deyja” og sænskan mun ekki geta keppt við enskuna. Stöndumst við ekki hina hörðu samkeppni á heimsmarkaðnum munum við ekki geta viðhaldið þróuðu velferðarkerfi okkar. Við munum ekki standast harða samkeppni á tæknivæddum heimsmarkaði ef fleiri munu ekki geta talað ensku óþvingað.

Að læra sænsku er ekki svo mikilvægt

Í Svíþjóð láta æ fleiri foreldrar börn sín í enskumælandi menntaskóla. Ég hef heyrt marga tungumálakennara segja að þeir hafi hitt foreldra sem sagt að það væri ekki svo mikilvægt að börn þeirra lærðu sænsku vel, það mikilvægasta væri að þau lærðu ensku vel. Kannski væri það, í sí stækkandi enskumælandi heimi, börnum okkar í hag ef öll kennsla í grunnskólum færi fram á ensku?

Sem enskumælandi gætum við athafnað okkur af meiri krafti í EB

Enskumælandi EB ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og fleiri löndum, myndu sigra með yfirburðum yfir öðrum tungumálum og myndu þegar til lengri tíma er litið leiða til enskumælandi heims. Sem myndi þýða betri heimur, því ég trúi því að heimur þar sem allar manneskjur geti skipst á hugmyndum, er betri heimur.

Ágreingur milli þjóðflokka harðnar

Tungumálabreytingar frá sænsku til ensku myndi, á löngu millibilsástandi, þýða mikla erfiðleika fyrir sænska samfélagið. Stéttaskiptingin og þjóðflokkaágreiningurinn myndu harðna. Með tungumálinu skipuleggjum við kunnáttu og reynslu. Þess vegna myndu tungumálaskipti innibera gríðarlegt kunnáttutap sem myndi þýða að við ættum erfitt í lengri tíma með að láta að okkur kveða á alþjóðavettvangi.

Sænskir rannsóknarmenn verða að kunna ensku til að Svíþjóð geti áfram verið mikils metin rannsóknarþjóð. Þetta mælir ekki gegn þeim metnaði að sænskir rannsóknarmenn eigi að geta talað og skrifað á sænsku um sérfag sitt. ”Móðurmálið er sjálfsagður driföxull í tungumálalegum og andlegum útbúnaði”. Til að geta náð sem bestum árangri ættu rannsóknarmenn að skrifa á móðurmáli sínu og síðan að notast við þýðendur. Samkvæmt mikilsvirtum sænskum málasérfræðingum erum við hugvitsömust á móðurmáli okkar.

Til byggðasafnsins

Að sjálfsögðu verður að notast við ensku og hún mun t.o.m. verða ráðandi á ýmsum sviðum. Vísindin og vinnumarkaðurinn verða æ alþjóðlegri og það gerir enskuna að eina mögulega vinnutungumálinu. Vandamálið birtist þegar það er ekki lengur mögulegt að nota sænsku innan viss sviðs, þegar við getum ekki lengur skrifað og lesið um hávísindaleg tölvumálvísindi, erfðatækni, sifjarétt eða landbúnaðarhagfræði á sænsku. Þá kemur forheimskan til sögunnar og félagslegar gjár myndast – því stærri því fleiri svið sem verða fyrir áhrifum. Tungumál sem verður fyrir mjög miklu svæðatapi verður þá eingungis notað í faðmi fjölskyldunnar, við viðhafnasiði og á byggðasafninu.

Það er núna sem við verðum að velja tungumál, því á morgun er það of seint. Við verðum að vita hvað gerist og taka ábyrgð á eigin örlögum. EB með 24 opinber tungumál mun ekki starfa nógu vel. Kostnaðurinn fyrir túlka og þýðendur mun fara út fyrir öll mörk og það er algjörlega óraunsætt að trúa því að það muni verða nóg til af fjármagni og mannskap til að þýða alla fundi og skjöl á öll tungumálin. Já til EB, er já til EB með 24 opinber tungumál og er þá í raun verið að segja já til heims þar sem enskan og enskumælandi menning ræður ríkjum, og nei til fjölmenningarlegrar Evrópu.


© Hans Malv, 2004