Hvað er esperantó?

Bæði tungumál og lífsspeki.

Esperantó er lifandi og fallegt tungumál. Það hefur verið reynt í framkvæmd í meira en 115 ár og hefur þróast í blæbrigðafullt og fjölhæft samskiptaverkfæri. Ekkert annað tungumál hefur breiðst út jafn hratt yfir hnöttinn – án hernáms, styrjalda eða landnáms. Nú er talið að um 2 000 000 manns kunni esperantó. Það eru til um 100 tímarit á esperantó og 40 000 bókatitlar, flestir þýddir. Það er til ríkulegt framboð á útvarpssendingum, tónlist og leikritum á esperantó. Esperantó hefur sýnt í reynd að það er álíka gott samskiptatungumál, ritmál og vísindamál og hver önnur þjóðtunga. Það verða til á ári hverju meira en 300 vísindagreinar á esperantó (skv. árlegri bókaskrá The Modern Language Association of America).

Það er auðvelt að búa til ný orð þar sem esperantó – ólíkt öðrum tungumálum – er vel skipulagt og rökrétt. Mörg nýrri orða eins og t.d. bréfasími, blómaskreytingamaður, Netið og gervihnattarmóttakari urðu til á esperantó langt á undan flestum tungumálum.

Það er miklu auðveldar að læra esperantó en önnur tungumál af því að:

 1. Bókstafirnir eru alltaf bornir fram á sama hátt og hver stafur í orði er borinn fram. Þess vegna verða aldrei vandkvæði með stafssetningu eða framburð þar sem áherslan liggur alltaf á næstsíðasta atkvæði.
 2. Málfræðin er einföld, rökrétt og án undantekninga. Það eru einmitt undantekningarnar sem gera það svo erfitt að læra nýtt tungumál.
 3. Flest orðanna í esperantó eru alþjóðleg og er að finna í tungumálum heimsins.
 4. Orðmyndunin er einföld. Ný orð eru mynduð með aðstoð frá fyrir og eftiratkvæðum. Þegar maður hefur lært eitt orð fær maður oft tíu, eða fleiri, með í kaupbæti.

Án þjóðar

Hugmyndin með esperantó er sú að það verði annað tungumál allra. Tungumál án þjóðar, tungumál sem ekki kemur í stað annara tungumála og menningarheima heldur virðir rétt allra til eigin tungumáls og eigin menningarheims. Esperantó hefur náð útbreiðslu sinni eingöngu með því að fólki hefur líkað hugmyndin “að allar manneskjur eru jafn réttháar og ættu þess vegna að geta haft samskipti sín á milli á jafnréttisgrundvelli”. Að samskipti milli fólks frá mismunandi menningarheimum eigi ekki að byggja á að annar ráði ríkjum og hinn játi uppgjöf sína. Að vinátta og óhindruð samskipti milli fólks frá mismunandi menningarheimum og heimshlutum eru eðlilegar frumeiningar friðar. Það er bara eðlilegt að fólk sem hugsar þannig einnig geti talað saman. Það var ástæðan til að esperantó skapaðist, og hefur mótað sögu þess.

Hvenær leysir þú verk best af höndum

Vísindamenn hafa staðfest að við leysum verk best af höndum þegar við fáum að nota eigið tungumál. En með alþjóðamáli sem auðvelt er að læra er síðan hægt að hafa samskipti á sömu forsendum og byggja brýr. Ef fólk fær að nota eigið móðurmál og finna öryggi og ánægju í sínum menningarheimi þá er auðveldara að sýna skilning og umburðarlyndi gagnvart öðrum tungumálum og menningarheimum. Það er afdrifaríkt að svo margir stjórnmálamenn, vísindamenn og foreldrar lækka í tign eigið tungumál til annars flokks tungumáls. Það skapar ófyrirsjáanleg vandamál og vinnur á móti hollri þjóðlegri og alþjóðlegri þróun.

Er eign þín og mín

Esperantó er ekki eign nokkurs. Það tilheyrir öllum. Það hefur ekki neina nýlendufortíð eða nokkra tegund sögulegs þrýstings. Vinsældir esperantó meðal minni þjóða, einnig meðal stærri landa eins og t.d. Japans, byggist fyrst og fremst á hlutleysi tungumálsins. Þegar horft og hlustað er á tvo esperantista frá tveimur mismunandi löndum ræða saman þá er ekki hægt annað en verða fyrir þeirri sláandi tilfinningu af frelsi og samstöðu sem einkennir samtalið.

Nokkrir fordómar um esperantó:

 1. Esperantó ryður burt þjóðtungunum. Rangt. Það eru stóru þjóðtungurnar, eins og t.d. enskan, sem valda því að mörg smærri tungumál nú eru í útrýmingarhættu.
 2. Esperantó hefur enga menningu. Rangt. Esperantó hefur verið til í meira en 115 ár og í kringum tungumálið hefur þróast menning sem inniber jafnrétti og réttlæti milli tungumálanna og skilning og umburðarlyndi milli fólksins ásamt verndun og varðveislu á jafnt stórum sem litlum tungumálum og menningarheimunum sem tengja þau saman.
 3. Esperantó er bara evrópskt. Rangt. Esperantó er byggt á indóevrópskum málum í Evrópu og Asíu og hefur að hluta til málfræði og orðmyndun frá slavneskum tungumálum, sem m.a. byggja á kínverskum og afríkönskum hugsanagangi. Um allan heim finnst fólki að það kannist við eitthvað í tungumálinu.
 4. Esperantó hefur lítinn orðaforða. Rangt. Esperantó hefur stærri orðaforða en flest önnur tungumál. Með aðstoð frá rökréttri og kerfisbundinni uppbyggingu þess er létt að verða sér úti um stóran orðaforða. Berðu saman orðin tönn – tennur sem á ensku heitir tooth – teeth og á esperantó dento – dentoj. Annað dæmi er t.d. mús – mýs sem heitir á ensku mouse – mice og á esperantó muso – musoj. Fleirtala er alltaf mynduð með því að bæta við stafnum j. Berðu saman enska orðið yfir að læra, learn, og enska orðið yfir skóla, school. Sambærilegt orð á esperantó heitir lerni og lernejo. Þar sem bókstafirnir – ekki eru tákn fyrir staðinn, eða salinn, fyrir það sem grunnorðið gefur til kynna. Þ.e.a.s. lernejo er staður þar sem hægt er að læra eitthvað. Svín heitir á ensku pig og stía sty. Samsvarandi orð á esperantó er porko og porkejo. Esperantó hefur mörg orð og beygingar sem vantar í önnur tungumál. Auðvitað er esperantó ekki fátækt af orðum. Það eru haldnar ráðstefnur á esperantó, án túlks, með þúsundir ráðstefnugesta frá öllum heiminum og það eru til fleiri en 40 000 bækur bæði á frummálinu og þýddar.
 5. Það er ekkert gagn af því að kunna esperantó. Rangt. Margir esperantistar eru málakunnáttumenn og segja oft að þeir hafi einmitt haft mest gagn af esperantó á ferðalögum sínum. Esperantistar eru ekki framandi í framandi landi. Þú hittir auðveldlega vini sem kunna esperantó og sem hafa alþjóðlegan áhuga.
 6. Esperantó var falleg hugsun en það varð aldrei að neinu! Rangt. Það hefur alltaf verið unnið á móti nýjungum af þeim sem hafa ekki viljað hugsa upp á nýtt eða ekki þorað að láta af höndum sérstöðu sína. Einu sinni var unnið á móti nýgrísku, nýnorsku og tékknesku af menningarvitum síns tíma. Það hefur verið unnið á móti esperantó frá fyrstu byrjun af ýmsum forréttindahópum, og hefur t.o.m. verið bannað í einræðisríkjum. En þrátt fyrir allt hefur esperantó breiðst út til allra heimshorna, ekki þökk sé stjórnmálamönnum heldur þökk sé venjulegu fólki sem hefur trúað á hugmyndina um að ef venjulegt fólk frá ýmsum löndum heims getur auðveldlega haft samskipti sín á milli fáum við betri heim.
 7. Esperantó er gervitungumál og ekki alvöru tungumál. Rangt. Esperantó er tungumál sem manneskjur hafa formað. Öll tungumál hafa verið búin til af manneskjum. Munurinn á venjulegum tungumálum og esperantó er að esperantó er formað eftir vísindalegum reglum til að verða nothæft sem auðvelt samskiptaverkfæri fyrir fólk með ólík móðurmál. Og sem slíkt er það frábærlega vel til fallið.
 8. Esperantista dreymir um heim þar allir tala esperantó og ekkert annað. Rangt. Allir esperantistar hafa í gegnum tíðina alltaf varið þjóðtungurnar. Reynslan er að margir hafa fengið í gegnum esperantó það mikinn áhuga á öðrum löndum og fólki að þeir hafa lært fleiri tungumál.
 9. Esperantó er of erfitt fyrir mig. Rétt. Þú veist best sjálf/ur. En esperantó er miklu léttara að læra en nokkuð annað tungumál.

Árlega eru haldnar meira en hundrað alþjóðlegar ráðstefnur og fundir á esperantó – án túlka og þýðanda. Stærsti fundurinn er Heimsþingið. Það var haldið 1997 í Adelaide, 1998 í Montpellier, 1999 í Berlín, 2000 í Tel-Aviv, 2001 í Zagreb, 2002 í Fortaleza í Brasilíu, 2003 í Svíþjóð og 2004 mun það verða haldið í Peking og 2005 í Vilníus í Litháen. Árið 2000 var haldið í Amman fundur fyrir esperantómælandi í Arabaríkjunum. Ár 2001 var haldið fimmta alameríkska þingið í Mexíkó borg og í Seoul 2002 var haldið esperantóþing fyrir esperantómælandi í Asíulöndunum.

117 lönd

Universella Esperanto Associationen, UEA, eru esperantósamtök fyrir allan heiminn með skrifstofur í Rotterdam í Hollandi. UEA hefur félagsmenn í 117 löndum og samtökin hafa ráðgefandi stöðu í Unesco og skrifstofu fyrir upplýsingaflæði í SÞ.

UEA gefur m.a. út árbók og skipuleggur árlega Heimsþingð. Þar að auki er hægt allt árið að finna um allan heim kúrsa, semínar, sérfræðiráðstefnur, hátíðir og aðra áhugaverða fundi. Akademía þar sem um 50 færir esperantistar frá ýmsum löndum ber lokaábyrgð á tungumálinu og þróun þess. Akademían gefur út tímarit með ráðum, ákvarðanatökum og öðru áhugaverðu tengdu tungumálinu.

Heimssamtök unglinga

TEJO eru esperantósamtök unglinga. Þau gefa m.a. út Passporta Servo, bók með þúsundir heimilsfanga esperantómælandi um allan heim. Svipuð bók er Amikeca Reto, bók um vináttunetverk fólks sem býður aðstoð sína sem leiðsögumenn um heimahaga sína. Gegnum TEJO er hægt að að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegum vinnusveitum.

Það eru til mörg starfsfélög fyrir esperantómælandi eins og t.d. fyrir lækna og þá sem vinna í heilsugeiranum, rithöfunda, blaðamenn, járnbrautarverkamenn, rannsóknarmenn, stærfræðinga, tónlistarmenn og lögmenn. Þessi félög skipuleggja ráðstefnur, gefa oft út eigin tímarit og vinna við að stækka orðaforða fagyrða á esperantó. Þau vinna líka með þýðingar á fræðibókum.

Fyrir hjólreiðamenn og bahæista

Það eru til mörg félög fyrir esperantómælandi. Þannig eru t.d. til félög fyrir hjólreiðamenn, skáta, blinda, skákmenn, búddista, kaþólikka, kvekara, mótmælendur, mormóna, og bahæista.

Á fræðimannaþingi í UNESCO í París sagði Claude Piron, svissneskur háskólalektor og túlkur í mörg ár í SÞ:

“Þeir sögðu við mig þegar ég var lítill: ”Vertu óhræddur að spyrja til vegar. Tala, og þú munt komast á heimsenda”. En eftir nokkra kílómetra talaði fólk annað tungumál. Að spyrja þau var gagnslaust.

Þeir sögðu við mig: ”Lærðu tungumál í skólanum til að geta talað við fólk frá öðrum löndum”. En 90 % allra fullorðna geta ekki komið hugsunum sínum í orð á þeim framandi tungumálum sem þeir hafa lært í skólanum.

Þeir sögðu við mig: ”Á ensku getur þú bjargað þér hvar sem er í heiminum”. En í spænsku þorpi sá ég bílslys milli bíla frá Frakklandi og Svíþjóð. Bílstjórarnir gátu hvorki gert sig skiljanlega hvorn við annan eða við lögregluna. Í lítilli borg í Tælandi sá ég örvilnaðan ferðamann án árangurs útskýra sjúkdómseinkenni sín fyrir lækni. Ég hef unnið hjá Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni í öllum byggðum heimsálfum og á nokkrum eyjum og ég hef fengið staðfest að í Kongó, Japan og á mörgum öðrum stöðum er enska algjörlega gagnlaus fyrir utan á stærri hótelum, í stærri verslunum, í viðskiptaheiminum og hjá flugfélögunum.

Þeir sögðu við mig: ”Þökk sé þýðingunum að nú eru allra fjarlægustu menningarheimar aðgengilegir öllum”. En þegar ég bar saman frumritin við þýðingarnar sá ég svo margar rangfærslur, að svo miklu var sleppt, að svo lítil virðing var borin fyrir því hvernig höfundurinn færði hugsanir sínar í orð að að ég fann mig knúinn að taka undir með ítalska málshættinum: ”Traduttore, traditore” (Að þýða er að svíkja).

Þeir sögðu við mig að Vesturlönd hjálpar Þriðja heiminum með virðingu við hæfi fyrir menningu þeirra. En ég sá ekki að nokkuð tillit væri tekið til tungumála þeirra. Þegar frá byrjun voru tungumál okkar þvinguð upp á þá, eins og það væri sjálfsagt að þau væru þau bestu til samskipta. Ég sá hvernig ensku og frönsku tungumálin mynduðu menningarlegan þrýsting, sem breytti hugsunarhætti fólksins, og hafði einnig niðurbrjótandi áhrif á forna menningarheima þar sem jákvæð gildi þeirra voru samviskulaust hunsuð. Og ég sá hvernig það urðu til óteljandi vandamál þegar átti að kenna staðbundna vinnuaflinu tungumál, af því að tæknimenn Vesturlanda skildu ekki tungumál þeirra, á tungumáli sem hafði engar námsbækur.

Þeir sögðu við mig: ”Almenn skólakennsla mun ábyrgjast sömu möguleika fyrir allar stéttir”. Og ég sá hvernig ríkar fjölskyldur í þróunnarlöndunum sendu börn sín til Englands og Bandaríkjanna til að læra enska tungu, á meðan almenningur, fjötraður í minnimáttarkennd eigin tungumáls og sem fórnarlömb alls konar áróðurs, áttu í vændum dapra framtíð.

Þeir sögðu við mig: ”Esperantó hefur mistekist”. En í fjallaþorpi í Evrópu sá ég hvernig barn landbúnaðarverkamanns, eftir bara sex mánaða kennslu, talaði við gesti frá Japan.

Þeir sögðu við mig: ”Það vantar allt mannlegt í esperantó”. Ég hef lært tungumálið, lesið ljóð þess, hlustað á söngva þess. Ég hef hlustað í trúnaði á Brasilíubúa, Kínverja, Írani, Pólverja og á ungling frá Uzbekistan. Og hér er ég nú – fv. atvinnuþýðandi – og verð að segja heiðarlega að þessi samtöl voru þau umhugsunarlausustu og djúpsæjustu samtöl sem ég hef nokkurn tíma átt á framandi tungumáli.

Þeir sögðu við mig: ”Esperantó er einskis virði þar sem það hefur enga menningu”. En þegar ég hitti esperantómælandi í Austur-Evrópu, Asíu og Latnesku Ameríku, þá voru þeir meira menninglega sinnaðir en flestir í sömu félagslegu stöðu. Og þegar ég hef tekið þátt í alþjóðlegum umræðum um þetta tungumál hef það virkilega vakið aðdáun mína á hve háu vitsmunastigi hún var.

Ég reyndi að útskýra þetta fyrir fólkinu í kringum mig. Ég sagði: ”Komið! Sjáið! Þetta er eitthvað alveg einstakt! Tungumál sem leysir samskiptavandamál fólks jarðarinnar! Ég sá Ungverja og Kóreubúa ræða stjórnmál og heimspeki aðeins tveimur árum eftir að þeir höfðu byrjað að læra tungumálið! Það hefði verið ómögulegt á nokkru öðru tungumáli! Og ég sá það og það og einnig…”

En þeir svöruðu: ”Esperantó er ekki alvarlegt. Og alla vega, það er gervi”.

Ég get ekki skilið. Þegar sál manneskjunnar, tilfinningar hennar, fínustu blæbrigði hugsana hennar eru sett fram á tungumáli sem er skapað af ríkidæmi samskipta margra menningarheima, þá segja þeir við mig: ”Það er gervi”.

En hvað sé ég á ferðum mínum um heiminn? Ég sé ferðalanga sem þrá að deila með sér af hugmyndum sínum og upplifunum, eða kannski bara mataruppskriftum, til staðbundnu íbúanna. Ég sé hvernig tilraunir að spjalli með handapati leiða til hrapalegs misskilnings. Ég sé fólk sem þyrstir eftir upplýsingum en vegna málahindranna getur ekki lesið það sem það vill.

Ég sé helling af fólki sem eftir sex, sjö ára málanám, stamandi og með fyndinn framburð, reynir án árangurs að segja það sem það vill. Ég sé hvernig tungumálaójafnrétti og mismunun þrífast um allan heim. Ég sé hvernig diplómatar og sérfræðingar tala í hljóðnema og hlusta með heyrnatólum á, ekki á samtalsaðilann, heldur á rödd annarar manneskju. Eru þetta eðlileg samskipti? Frá sál eða heila til munns í eyra, það er auðvitað gervi, en frá hljóðnema í heyrnatól í túlkastúku, það er eðlilegt. Tilheyrir hæfileikinn að leysa vandamál með aðstoð greindar og næmni ekki lengur til mannlegrar náttúru?

Þeir sögðu svo mikið við mig en ég sé eitthvað annað. Ég reika um sleginn út af laginu í samfélagi sem krefst að allir hafi rétt á að segja skoðun sína og tala saman. Og ég furða mig hvort það er verið að plata mig eða hvort ég sé ruglaður.“

Ætti að reyna skapa nýtt ”esperantó”?

Þú kemur kannski með rökin að esperantó hafi orðið til í Evrópu og er byggt upp af orðum frá evrópsku tungumálunum. Ef við viljum fá sameiginlegt alþjóðamál, væri þá ekki best að taka orð frá öllum tungumálum heims? Auðvitað er hægt að þykja gagnrýni þessi eiga rétt á sér en nú er esperantó til í flestum löndum heims. Það hefur verið notað í meira en 115 ár og tekist að fá viðurkenningu fólks um allan hnöttinn. Hvers vegna ætti þá að skapa nýtt “esperantó”? Myndi vera auðveldara að læra það, ef nokkur orð kæmu frá kínversku, nokkur frá swahílí, nokkur frá íslensku, nokkur frá arabísku o.s.frv.? Hver myndi hagnast á því? Það eru til rúmlega 6 000 tungumál í dag, mállýskur ekki meðtaldar. Ef við myndum skapa nýtt tungumál með tveimur eða þremur orðum frá hverju tungumáli, hver yrði ágóðinn af því? Það yrði þvert á móti miklu erfiðara að læra svona tungumál.

Það er að vísu rétt að esperantó er indóevrópskt tungumál en esperantó hefur náð miklum vinsældum í fjölda landa þar sem ekki eru töluð indóevrópsk tungumál, t.d. í Víetnam, Kína, Ungverjalandi, Eistland, Finnlandi og Japan.

Sumir mæla á móti og segja að ef esperantó yrði sameiginlegt tungumál heimsins til alþjóðasamskipta þá myndi það fljótlega greinast niður í mállýskur. Kínverjar myndu tala sitt esperantó, evrópubúar sitt o.s.frv.

115 ár

Það er meðal þeirra sem hafa eitt og sama móðurmál sem framburðarmismunur verður til. Ekki meðal þeirra sem lært málið sem annað tungumál. Esperantó er ekki, og á ekki að vera, móðurmál nokkurar manneskju. Við tölum esperantó við útlendinga, ekki við samlanda okkar. Ef þeir í Nígeríu t.d. myndu byrja að bera fram esperantó á annan hátt og skapa ný orð og orðalag, þá myndi það einungis fá þær afleiðingar að aðrir ættu erfitt með að skilja hvað þeir segðu. Nígeríubúarnir sem nota esperantó til að geta gert sig skiljanlega við aðra myndu þá leiðrétta framburð sinn. Það má bæta við að esperantó hefur verið til í meira en 115 ár og hingað til hafa engar mállýskur gert vart við sig. Þeir sem tala esperantó í Brasilíu hafa sama framburð og þeir í Svíþjóð. Esperantó hefur mjög einfaldar framburðarreglur og ef það mun verða til einhver framburðarmunur í framtíðinni mun það gerast í öllum heiminum.

Tvírætt

Þjóðtungur, eins og t.d. enskan eru oft tvíræðar. Tökum t.d. ensku orðin: Japanese encephalitis vaccine. Þau geta bæði þýtt heilabólgumótefni framleitt í Japan og mótefni gegn japanskri heilabólgu. Á esperantó er aldrei nokkur vafi á hvað er átt við því á esperantó er skrifað: Japana encefalit-vakcino og japan-encefalita vakcino.

Prófessor Christer Kiselman við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð hefur kennt stærðfræði á esperantó við kínverskan háskóla: ”Nemendur með sex ára enskunám gátu ekki gert sig skiljanlega og ég ekki skilið þá. Eftir átta mánaða esperantónám gátum við rætt saman”.

Gorbatjov

Alþjóðavísindaakademían í San Marino stendur fyrir ráðstefnum, fyrirlestrum og prófum á esperantó. Háskólaritgerðir eru skrifaðar bæði á esperantó og á móðurmáli viðkomandi. Síðan 1996 er f.v. sovétski forsetinn Mikael Gorbatjov heiðursdoktor við Akademíuna og hann hefur áhuga á að vinna að lýðræðislegri lausn á alþjóðatungumálavandanum.

Í stórri hagfræðiorðabók sem gefin var út í Kína er magn upplýsinga á ellefu tungumálum. Stærst rými er gefið ensku og esperantó.

Ég heyrði esperantómælandi Englending segja að samkvæmt reynslu hans var mun auðveldara að tala esperantó við Japana sem sögðu sig kunna esperantó en að tala ensku við Japana sem sögðu sig kunna ensku.

Er hægt að tjá sig jafn glæsilega á esperantó og ensku? Sú enska sem töluð er af Svía er ekki eins glæsileg og sú enska sem er töluð af Englendingi. Þar sem esperantó er ætlað að vera tungumál allra er hægt að bera esperantó saman við þá ensku sem töluð er af útlendingum og þá er hægt að segja að það er miklu auðveldara að ná dýpri tjáningu á esperantó en á ensku og öðrum framandi tungumálum.


© Hans Malv, 2004